Reglur vegna agabrota

Aðgerðir sem gripið verður til hjá Ösp ef einstaklingar hafa orðið uppvísir að óæskilegri hegðun.

Ösp hefur upplýsingaskyldu gagnvart foreldrum og forráðamönnum iðkenda og reynir að rækja þá skyldu eins og það frekast getur. Viðkvæm mál verða ekki leyst án þess að trúnaður og traust ríki milli þeirra sem að málunum koma. Það getur þó verið rétt í einstaka minniháttar atriðum að hafa þau eingöngu milli þjálfarans/starfsmanns Aspar og iðkandans, þ.e.a.s. þegar mál hafa verið leyst fljótt og vel og allir aðilar verið sáttir við málalyktir.

  1. Þeir sem verða varir við samskiptavanda reyna að leysa hvert atvik um leið og það kemur upp eða eins fljótt og unnt er. Líklegast er að þjálfarar og/eða foreldrar sem starfa fyrir félagið geti klárað sum mál strax.
  2. Mál sem koma upp og leysast ekki samkvæmt lið 1 ber að tilkynna til þjálfara eða formanns og upplýsir hann jafnframt stjórn félagsins um viðkomandi mál. Ef málið er orðið stærra en svo að hægt sé að leysa það á farsælan og auðveldan hátt verður málið lagt fyrir stjórn félagsins.
  3. Agamál iðkenda sem ekki er unnt að leysa strax, svo sem endurtekin truflun á æfingum og óásættanleg framkoma gagnvart öðrum iðkendum, þjálfurum eða starfsfólki, skulu leyst með samráði þjálfara, annarra starfsmanna eða stjórnarmönnum. Ef iðkandi veldur verulegri truflun á æfingum, keppni eða öðru sem fellur undir starfsemi Aspar á einhvern hátt og fullreynt er að hann lætur ekki segjast við áminningu þjálfara, er heimilt að vísa iðkandanum af æfingu eða úr keppni. Skal þjálfari samstundis hafa samband við forráðamenn og tilkynna ákvörðunina.  Það skal áréttað að brottvísun af æfingu/keppni er neyðarúrræði. Komi til slíkrar brottvísunar sækir iðkandinn ekki aðrar æfingar eða keppni á vegum Aspar fyrr en mál hans hefur verið athugað frekar.
  4. Ef iðkandi gerist sekur um alvarleg eða endurtekin brot á agareglum Aspar er heimilt að vísa honum tímabundið úr félaginu meðan leitað er lausna á málum hans enda verði forráðamönnum tilkynnt tafarlaust um ákvörðun þjálfara og stjórnar.
  5. Gerist iðkandi sekur um alvarleg brot á almennum samskiptareglum í keppnisferðum eða í öðrum ferðalögum á vegum félagsins verður haft samband við foreldra/forráðamenn viðkomandi og þess óskað að iðkandinn verði sóttur eða hann sendur heim á kostnað forráðamanna.
  6. Iðkendur eru ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir kunna að valda á eigum félagsins, starfsfólks eða liðsfélaga sinna, sem og tjóni sem viðkomandi kann að valda í keppnisferðum félagsins.
  7. Þjálfari færir inn á sérstakt skráningarblað brjóti iðkandi ofangreindar reglur félagsins. Skráningarblaðið skal varðveitt hjá þjálfara.

Reglur

Almennar reglur Íþróttafélagsins Aspar gilda í ferðum á þess vegum eins og öðrum atburðum á vegum Íþróttafélagsins.
Að sjálfsögðu er öll notkun vímuefna, nef-, munntóbaks og áfengis, stranglega bönnuð í ferðum. Ef þátttakandi notar einhverja af ofangreindum tegundum vímugjafa í ferðinni verður hann sendur heim á eigin kostnað og í framhaldi af því jafnvel útilokaður frá ferðum á vegum Aspar.
Ef þátttakandi verður uppvís af einhverri óæskilegri hegðun s.s. stuldi, skemmdarverkum, sí endurtekinni ókurteisi ofl. verður hann einnig sendur heim á eigin kostnað og jafnvel útilokaður frá ferðum á vegum Aspar. Rétt er að benda á að við ferðumst sem hópur svo hegðun eins einstaklings getur haft áhrif á allan hópinn.

Verklagsreglur

  1. Iðkandi brýtur af sér einu sinni (sem veldur óþægindum hjá öðrum iðkanda eða þjálfara). Þjálfari punktar það hjá sér á tiltekið skráningarblað og ræðir jafnframt við viðkomandi aðila og gerir honum grein fyrir “broti” sínu og kemur með tillögur að úrlausnum. Upplýsir um leið foreldra/forráðamenn um „brotið“.
  2. Iðkandi brýtur af sér aftur. Þjálfari ræðir við viðkomandi og upplýsir stjórn félagsins og foreldrar/forráðamenn kallaðir til vegna brots viðkomandi og þeir fengnir í lið með starfsmönnum Aspar til að leita úrlausna.

Stjórn Íþróttafélagsins Aspar

Almenna reglan í keppnisferðum félagsins er að neysla sælgætis og gosdrykkja er ekki leyfð frá brottför og þar til keppni er lokið, nema að þjálfari / fararstjóri heimili annað. Minibar á hótelherbegjum skal helst vera læstur ef hægt er að koma því við

Fundur

Fundur verður haldinn með þátttakendum áður en farið er. Þá fá allir útbúnaðarlista. Mikilvægt er að sem flestir sjái sér fært um að mæta á þennan fund. Ætlast er til að foreldrar og/eða forráðamenn mæti á fundinn.