Tryggingamál iðkenda Aspar

Meginreglan er að iðkendur Aspar eru ekki tryggðir á vegum félagsins þó þeir stundi æfingar og keppni á vegum þess. Við bendum forráðamönnum á að kanna heimilistryggingar sínar því í flestum tilfellum eru iðkendur tryggðir þar.

Iðkendur félagsins kunna að eiga rétt til bóta úr íþróttaslysasjóði ÍSÍ sbr. reglugerð sambandsins um sjóðinn (www.isi.is) eða frá Tryggingastofnun ríkisins sbr. reglugerð Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins frá 2002 (www.tr.is).

Allir iðkendur 16 ára og eldri geta sótt um endurgreiðslu úr þeim sjóði.
Iðkendur eða forráðamenn þeirra bera sjálfir ábyrgð á að afla tilskilinna gagna.  Nauðsynleg eyðublöð fyrir tilkynningu er hægt að nálgast á heimasíðu ÍSÍ. Aðstoð við útfyllingu og frágang skjala er hægt að fá á skrifstofu Aspar.

 

Einnig bæta Sjúkratryggingar Íslands tjón vegna tannlækninga (skv. gjaldskrá) ef ekki er réttur til endurgreiðslu annars staðar Íþróttaslysasjóður ÍBR endurgreiðir kostnað vegna flutninga á slysadeild, gjald vegna komu á slysamóttöku og röntgen og að auki gjald fyrir eina endurkomu.

 

Það er mikilvægt að benda á það að samkvæmt íslenskum lögum bera þau félög og samtök sem standa fyrir félags- og tómstundastarfi ekki sjálfkrafa ábyrgð á slysum sem börn verða fyrir í starfinu. Frekari upplýsingar eru á heimasíðu ÍBR (www.ibr.is)

 

Upplýsingar á heimasíðu ÍBR:
Börn og ungmenni fá tjón af völdum slyss, t.a.m. tannlæknakostnað, ekki greiddan af öðrum, nema einhver beri skaðabótaábyrgð á slysinu.
Skilyrði skaðabótaábyrgðar eru m.a. að sá sem krafinn er um bætur eigi sök á slysinu.
Ef barn eða ungmenni slasast í óhappi sem engum verður kennt um ber sá sem stendur fyrir félags- og tómstundastarfinu þess vegna ekki ábyrgð á því.
Sá sem stendur fyrir starfinu ber hins vegar skaðabótaábyrgð ef starfsmenn hans, launaðir eða ólaunaðir, hafa sýnt af sér sök, t.a.m. vanrækslu við að gæta barna, og það veldur slysi.

Sá sem stendur fyrir starfinu, eða umráðamaður aðstöðu, getur orðið bótaskyldur ef aðbúnaður er ófullnægjandi og slys verður vegna þess.
Börn og ungmenni geta þurft að bæta öðrum börnum tjón sem þau valda þeim.
Heimilistryggingar fela lang oftast í sér ábyrgðartrygginguvegna tjóns sem börn valda og sumar fela líka í sér slysatryggingar vegna tjóns sem börn valda og sumar fela líka í sér slysatryggingu vegna slysa sem börn verða fyrir í frítíma. Þar sem að slíkum slystryggingum sleppir er barn eða ungmenni ekki tryggt í félags- og tómstundastarfinu frekar en þegar það er úti að leik.