Írlandsferð Aspar og Nes

Sameiginlegt knattspyrnulið Aspar og Nes hélt í æfinga og keppnisferð til Írlands dagana 19 júní til 25 júní. Markmið ferðarinnar var að æfa erlendis og etja kappi við lið frá Limerick, Cork og Waterford á íþróttasvæði háskólans í Limerick.

Sá hluti hópsins sem er búsettur á höfuðborgarsvæðinu hittust á þriðjudagsmorgninum 19. Júni við húsnæði ÍSÍ í laugardalnum. Leikmenn Nes sameinuðust hópnum á Keflavíkurflugvelli um 6 leytið. Fram undan var 16 tíma ferðalag til Limerick þar sem hópurinn þurfti millilenda í London þar sem flogið var til Dublin og þaðan tók við 4 tíma rútuferð til Limerick þar sem við mættum um miðnætti og hópurinn kom sér fyrir og allir sofnaðir stuttu seinna. Gist var í stúdentaíbúðum við háskólann sem var í 5 mínutna göngufæri frá knattspyrnuvellinum.

Fyrstu tveir dagarnir fóru í æfingar þar sem æft var á frá 10 til 14 og síðan hélt hópurinn í skoðunarferðir seinni part dagsins og kvöldin notuð til þess að slaka á og fylgjast með evrópumótinu í knattspyrnu. Fyrri daginn var Thomond Park skoðaður en hann er heimavöllur rúgbýliðsins frá Munster sem er eitt sterkasta rúgbýlið í Evrópu. Munster er héraðið sem Limerick er staðsett í. Seinni daginn var King Johns kastalinn kannaður en hann er eitt helsta kennileiti Limerick.

Á föstudeginum var fyrsti leikur ferðarinnar en þá mættu strákarnir Limerick. Strákarnir áttu fjöldann allan af færum en náðu ekki að nýta þau nógu vel og var refsað fyrir það og endaði leikurinn 4-2 fyrir Limerick. Eftir leikinn var haldið á leik hjá aðaliði Limerick í knattspyrnu en þeir eru í topp baráttunni í annarri deildinni á Írlandi. Í hálfleik gekk hópurinn út á völl þar sem formanni Limerick FC var afhent gjöf frá hópnum.

Á laugardeginum var komið að öðrum leik ferðarinnar en þá var spilað við Cork. Eftir ófarir leiksins á undan voru strákarnir staðráðnir í því að nýta færin og spila betur. Árangurinn stóð ekki á sér og unnu strákarnir flottan sigur 2-1. Eftir leikinn var haldið í verslunarmiðstöð í nágrenninu þar sem íþróttabúðirnar voru vinsælar hjá hópnum. Um kvöldið var slakað á fyrir leik morgundagsins. Þriðji og síðast leikur ferðarinnar var háður á sunnudeginum en þá var spilað við Waterford. Strákarnir spiluðu vel og endaði leikurinn með 3-1 sigri okkar. Eftir leikinn fór hópurinn í Go Kart þar sem hópurinn skemmti sér konunglega. Kvöldið fór í að ganga frá fyrir heimför því hópurinn þurfti að vakna um hálf 6 um morguninn. Sama fararsnið var á heimleiðinni. Rúta frá Limerick til Dublin, flogið frá Dublin til London og þaðan til Keflavíkur. Lent var í Keflavík um 23:00.

Kveðja

Darri og Maggi