Íþróttafélagið Ösp var stofnað 18. maí, 1980 af foreldra- og kennarafélagi Öskjuhlíðarskóla, með stuðningi frá Íþróttasambandi Fatlaðra.
Stofnfundurinn fór fram á Þingvöllum, þar sem mættu foreldrar og nemendur til veislu í Valhöll. Markmið Íþróttafélagsins Aspar er að standa fyrir íþróttaæfingum hjá félögunum, með sem fjölbreyttustum hætti, þeim til heilsubótar og ánægju og þátttöku í íþróttamótum, þar sem hæfni hvers og eins nýtur sín sem best.
Fjöldi iðkenda er um 190 manns og æfðar eru sjö íþróttagreinar, þannig að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Íþróttafélagið Ösp er opið öllum, sem hafa áhuga á íþróttum, en félagið hefur lagt aðaláherslu íþróttaþjálfun fyrir fatlaða og þroskahamlaða.
Þær íþróttagreinar sem æfðar eru hjá félaginu í dag eru boccia, nútíma fimleikar, fótbolti, sund, frjálsar íþróttir, keila og skautar. Flestir iðkendur eru í keilu og sundi og á Íþróttafélagið Ösp afreksfólk í flest öllum íþróttagreinum sem félagið iðkar.
Nú í dag, 18. maí, er félagið 40 ára og til stóð að halda veglega afmælishátið í maí á þessu ári en vegna COVID-19 faraldursins tók stjórn félagsins ákvörðun um að fresta þeim hátíðarhöldum um eitt ár eða til maímánaðar 2021.
Við hverjum alla til að fylgjast með hér á vefnum og á samfélagsmiðlum þegar afmælishátið Aspar fer í fullann gang á næsta ári.
Kær afmæliskveðja
Stjórn Aspar