Jón Margeir ólympíumótsmeistari

 

Jón Margeir Sverrisson úr Fjölni/Ösp varð í dag ólympíumótsmeistari í 200 metra skriðsundi í flokki S14 á nýju og stórglæsilegu heimsmeti. Hann kom í mark á 1:59,62 mínútum en Daniel Fox frá Ástralíu varð annar á 1:59,79 og Cho Wonsang þriðji á 1:59,93 mínútum.

Jón Margeir var annar eftir fyrstu 50 metrana en tók svo forystuna og var næstum kominn með sekúndu í forskot eftir 150 metra. Lokaspretturinn var hins vegar gríðarlega spennandi en Jón sýndi og sannaði að hann er sá besti í heiminum í dag þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall.

16.53 – Jón Margeir vann á nýju og stórglæsilegu heimsmeti, 1:59,62 mínútum!

16.52 – Jón Margeir erenn í forystu á 1:28,56 mínútum eftir 150 metra!

16.52 – Jón Margeir kominn í 1. sæti á 57,85 sekúndum.

16.51 – Jón Margeir í 2. sæti eftir 50 metra á 27,66 sekúndum.

16.50 – Jón Margeir signir sig og nú er sundið að hefjast.

16.48 – Verið er að kynna keppendurna til leiks. Bretarnir tveir sem keppa við Jón fá að sjálfsögðu bestu viðtökurnar.

16.46 – Þá er allt klárt. Næsta sund er 200 metra  skriðsund í flokki S14.

16.40 – Eins og gefur að skilja eru margir hér veifandi breska fánanum en það má einnig sjá þann íslenska á áberandi stað á pöllunum. Jón er með góðan stuðningshóp á bak við sig, bæði fjölskyldu og aðra úr íslenska ólympíuhópnum.

16.36 – Við fengum heimsmet í fyrstu grein. Keppandi frá Úkraínu náði í það. Endurtek að nýtt heimsmet gæti einnig litið dagsins ljós í sundinu hjá Jóni.

16.30 – Þá ganga keppendur í fyrsta úrslitasundinu inn en það er 200 metra fjórsund karla í flokki SM7. Nú er orðið ansi þétt setið á áhorfendapöllunum.

16.27 – Dómararnir eru að ganga inn á völlinn og það er klappað fyrir þeim. Ég klappa fyrir þeim ef þeir klúðra engu fyrir okkar manni.

16.20 – Best að minna aftur á aðalatriðið. Jón Margeir varð í 2. sæti í undanrásum í morgun og á góða möguleika á að ná í verðlaun eftir tæpan hálftíma. Íslandsmetið hans frá því í morgun er 2:00,32 mínútur.

16.15 – Jón Margeir synti fyrri 100 metrana í morgun á 57,73 sekúndum sem er skuggalega nálægt Íslandsmeti hans í þeirri grein. Millitímar Jóns í morgun voru annars sem hér segir: 27,79 – 57,73 – 1:29,08 – 2:00,32.

16.11 – Jón Margeir syndir á 5. braut og Daniel Fox, sá fljótasti í morgun, á 4. braut. Wonsang Cho frá Suður-Kóreu er svo á 3. braut en þessir þrír voru talsvert á undan öðrum í morgun, að lágmarki 1,5 sekúndum. Það verður hins vegar að hafa í huga að menn leggja ekki endilega allt í sölurnar í undanrásum.

16.07 – Hallarþulurinn er farinn að tala hraðar og hærra. Það þýðir aðeins eitt, það styttist í fyrsta úrslitasundið. Fyrst keppa karla í úrslitum 200 metra fjórsunds í flokki SM7 kl. 16:30 og svo konur í sömu grein í kjölfarið. Því næst er komið að Jóni og félögum.

16.00 – Jón Margeir hefur fórnað miklu til að komast á þann stað sem hann er á núna, orðið að eyða gríðarháum fjárhæðum í keppnisferðir og annað. Stórmótareynslan sem hann hefur öðlast með því er dýrmæt og hjálpar honum eflaust mikið hér í London enda virðist hann ekkert æsa sig of mikið yfir umfanginu.

15.58 – Þjálfarar Jóns sem fylgja honum hingað út eru þau Kristín Guðmundsdóttir og Vadim Forafonov. Þau eru sjálfsagt á nálum þó að erfitt sé að greina það. Kristín hefur reyndar mikla reynslu af svona stundum enda er þetta hennar sjötta ólympíumót, og Vadim er svo fyrrverandi heimsmeistari í garpasundi, ellefufaldur Rússlandsmeistari og ólympíufari.

15.50 – Jón Margeir er búinn að vera að hita upp í  keppnislauginni líkt og aðrir keppendur. Ég er sannfærður um að hann er klár í slaginn.

15.45 – Jón Margeir keppir í S14 flokki þroskahamlaðra. Vegna svindlmáls spænska körfuknattleiksliðsins á Ólympíumóti fatlaðra í Sydney árið 2000 var þroskahömluðum gert óheimilt að keppa á næstu Ólympíumótum, eða þar til nú í London. Úr því að engin skráning heimsmeta fór fram í flokki þroskahamlaðra eftir mótið í Sydney og fram til ársins 2009 var ákveðið að skrá viðmiðunarheimsmet sem eins og áður segir er 2:00,10 mínútur í 200 metra skriðsundikarla. Met sem vel gæti fallið í dag.

15.45 – Jón Margeir bætti Íslandsmet sitt í undanrásunum í morgun um 1,24 sekúndur þegar hann kom í mark á 2:00,32 mínútum. Það var ólympíumet í skamma stund þar til Ástralinn Daniel Fox bætti það í lokariðlinum en hann kom í mark á 2:00,11 mínútum. Sá tími er 1/100 úr sekúndu frá viðmiðunarheimsmetinu sem ákveðið var í greininni og hefur aldrei verið slegið.

15.45 – Ég sé föður Jóns Margeirs, Sverri Gíslason, hérna nærri sundlaugarbakkanum, nagandi neglurnar lítillega. Lái honum hver sem vill. Hvernig sem fer er þetta stærsta stundin í lífi sonar hans. 

15.45 – Það hefur verið því sem næst fullkomin mæting á langflesta viðburði hér í London hingað til en í dag er algjör örtröð á ólympíusvæðinu. Maður labbar ekki hratt á milli staða hérna. Nú þegar enn eru 45 mínútur í að fyrsta úrslitasund kvöldsins byrji hefur þónokkuð af fólki komið sér fyrir í sætum sínum hér í sundhöllinni.

Íslendingar eignast heims- og Ólympíumeistara

Það er ekki á hverjum degi sem Íslendingar eignast heimsmeistara og Ólympíumeistara sama daginn. Það gerðist hins vegar í gær þegar Jón Margeir Sverrisson vann ólympíugull í 200 metra skriðsundi