Ólafur Ólafsson hefur spilað boccia í þrjá áratugi og nú leggur hann til að settur verði upp boccia-völlur á Klambratúni til að hann og fleiri geti stundað þá skemmtilegu íþrótt þar. Kosið verður um þá hugmynd hans og annarra borgarbúa í rafrænum íbúakosningum sem standa yfir fram til 11. apríl.
Þetta kemur fram í frétt frá Reykjavíkurborg.
Ólafur segir að boccia-völlur á Klambratúni geti stuðlað að aukinni útivist eldri borgara við skemmtilegan leik; „Ég hef tekið þátt í því að kynna þennan leik í samstarfi við samtök eldri borgara og það mætti setja upp svona völl á fleiri stöðum en á Klambratúni, t.d. í Laugardal.“
Ólafur segir að boccia sé afar vinsæll leikur erlendis og vaxandi hér á landi. Þannig verði haldið Íslandsmót í boccia í Laugardalshöll dagana 20.-21. apríl þar sem koma saman 250 keppendur alls staðar af landinu. Ólafur Ólafsson hugmyndasmiður verður þar mótstjóri.
Þess má geta að settur hefur verið upp boccia-völlur með gervigrasi í Nauthólsvík og er hann staðsettur við bílastæðin. Boccia er ein fjölmennasta íþróttagreinin sem stunduð er meðal eldri borgara og fatlaðs fólks hér á landi, en íþróttin er rakin allt aftur til forn-Egypta.
Hugmynd Ólafs og aðrar hugmyndir borgarbúa sem kosið verður um í rafrænum íbúakosningum má skoða hér.
Alls eru 229 verkefni í boði – allt að 30 í hverju hverfi.