Þau geta beint okkur aftur á verðlaunabraut

Þau geta beint okkur aftur á verðlaunabraut

Jón Margeir Sverrisson og Kolbrún Alda Stefánsdóttir ætla bæði að slá Íslandsmet sín í London. stækka Jón Margeir Sverrisson og Kolbrún Alda Stefánsdóttir ætla bæði að slá Íslandsmet sín í London. mbl.is/Ómar

„Stærsti sigurinn er að vera með,“ segja þeir um Ólympíumót fatlaðra sem sett verður í kvöld með trukki og dýfu. Reynið að segja Jóni Margeiri Sverrissyni eða Helga Sveinssyni það.

Keppnisskapið lekur af þeim og eftir að hafa hitt þá hér í London í gær er ég enn sannfærðari um að þeir séu tilbúnir til að keppa um verðlaun nú þegar íþróttaveislan hefst að nýju hér í öruggum höndum Breta þar sem ekkert er til sparað. Hvorugur keppir reyndar í sinni sterkustu grein strax en það gæti reynst dýrmætt að losna við skjálftann sem fylgir því að keppa á þessu móti í fyrsta sinn.

Hin fjögur fræknu sem keppa fyrir hönd Íslands eru reyndar öll á sínu fyrsta Ólympíumóti. Hópurinn er sá næstfámennasti sem Ísland hefur sent, sem skýrist af kvóta sem Íslandi er settur, en engu að síður er ég sannfærður um að hann muni beina okkur aftur inn á verðlaunabraut eftir fyrsta mótið þar sem Ísland var án verðlauna í Peking fyrir fjórum árum.